Bann við Airbnb kallar bara á fleiri hótelbyggingar

Bann við Airbnb kallar bara á fleiri hótelbyggingar og þá verða færri iðnaðarmenn á lausu til að byggja íbúðarhús. Fólk sem þrengir að sér á sumrin meðan ferðamannastraumurinn er mestur er að minnka vandann bæði hvað varðar íbúðahúsnæði og herbergi fyrir ferðamenn og er því hluti af lausninni en ekki vandanum. Þar að auki skapar þetta miklum fjölda venjulegra heimila tekjur sem þau annars hefðu ekki.

Lausninn felst í því að sveitafélög og ríkið standi fyrir stofnun óhagnaðardrifinna (non profit) leigufélaga og að meirihluti leigumarkaðarins verði á hendi slíkra félaga. En á það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki viljað heyra minnst enda eru eigandur leigurisanna meðal áhrifamanna í þeim flokki.


mbl.is Bann við Airbnb lausn á vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Með því að banna Airbnb á höfuðborgarsvæðinu er verið að reyna að losa um húsnæði fyrir þá sem eru í húsnæðisvanda. Þeir sem reka gistiheimili á vegum Airbnb gætu þá leigt fólki sem er í þörf, selt húsnæði sem það þarf ekki að nota eða ger hvorugt, allt eftir því hvað hver vill gera. En ég er sannfærður um að það myndi hafa áhrif á leigumarkaðinn með því að auka leigumöguleika og lækka leiguverð.

Þetta hélt ég að þú Sigurður minn ættir auðvelt með að skilja þar sem þú telur þig jafnaðarmann, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Ég hins vegar, sem ekki er jafnaðarmaður, styð þá hugmynd að banna Airbnb. Það þarf ekki fleiri hótel við eigum að stýra ferðamannafjöldanum en láta ferðamannafjöldann ekki stýra okkur.

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.3.2017 kl. 17:18

2 identicon

Tómas minn, heldur þú virkilega að fólk sem er að leigja herbergi í íbúðinni sinni allt árið til ferðamanna eða alla íbúðina sína á sumrin vilji setja herbergið/íbúðina í langtímaleigu?

Pétur (IP-tala skráð) 11.3.2017 kl. 18:39

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Pétur, sumir eru að leigja herbergi aðrir leigja út íbúð og jafnvel íbúðir. Ef þú lest aftur það sem ég ritaði hér að ofan þá sérðu að ég geri ráð fyrir breytilegri niðurstöðu í tilfelli hvers og eins leigusala.

Ég er viss um að þeir eru til og örugglega þó nokkrir sem eru að leigja út íbúðir, litlar eða stórar, til ferðamanna í þeim tilgangi að stórgræða á þeim. Það er að sjálfsögðu allt í lagi að hagnast á slíkum viðskiptum, en mér sýnist þetta komið út í öfgar og kemur mest niður á þeim sem síst skildi, þ.e. þeim sem eru á leigumarkaði en þar hefur leiguverð farið langt fram úr öllu réttlæti og lenda sumir í þeirri stöðu að fá hvergi inni fyrir sig og fjölskyldu sína. Er það það sem "jafnaðarmenn" vilja???????

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.3.2017 kl. 18:55

4 identicon

Tómas, leiguverð er í rauninni ekki komið uppúr öllu valdi. Meðalleiguverð er í kringum 3000kr á fermetrann. Það gerir um 240.000 fyrir 80 fermetra íbúð. Skoðaðu nú hver afborgun af 85% láni af 80 fermetra íbúð er. Bættu svo við öllum reikningum tengdum íbúðinni s.s. Hússjóði og fasteignagjöldum.

Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 er gert ráð fyrir byggingu 700 íbúða á ári. Á árunum 2010-2015 voru 1557 íbúðir byggðar í Reykjavík. Lóðaverð hefur margfaldast síðasta áratuginn. Á sama tíma hafa vextir lækkað og kaupmáttur aukist. Ofan á þetta er gerð krafa um algilda hönnun í nýbyggingum. Við erum einnig að sjá mjög stóra árganga sem eru nú að koma inná fasteignamarkaðinn. Aðfluttir umfram brottflutta skipta þúsundum undanfarin ár. Allt þetta hefur áhrif á eftirspurn og verð á nýbyggingum.

Á árunum 2010-2016 hefur húsnæðisverð hækkað um 42%. 

Það að kenna um 2000 herbergjum/íbúðum sem voru leigð út á airbnb árið 2016 (500 árið 2015) um þann húsnæðisvanda sem við stöndum frammi fyrir núna er ansi hæpið. Þegar borgar- og bæjarstjórar fara svo að banna skammtímaleigu á herbergjum/íbúðum þá eru þeir einfaldlega að reyna að fela þeirra eigið aðgerðarleysi í úthlutun nýrra lóða og nýbygginga í þeirra eigin sveitarfélagi.

Húsnæðisvandinn er alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna og ríkisins. Ekki á ábyrgð fólks sem er að drýgja tekjurnar með því að leigja út herbergi/íbúðina til að standa undir afborgunum af húsnæðislánum sem bera okurvexti.

Það hjálpar engum að banna öllum að setja eignina/eða hluta af henni í skammtímaleigu. Betra væri að setja þau skilyrði að þeir sem leigja til skamms tíma búi í viðkomandi eign. Þannig má koma í veg fyrir að menn safni eignum.

Pétur (IP-tala skráð) 11.3.2017 kl. 21:14

5 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ekkert af því sem þú nefnir hér að ofan Pétur kemur láglaunafólki, fólki í þörf að notum. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi kennt Airbnb eingöngu um húsnæðisvandann en það er rétt sem þú segir að sveitarfélögin eiga þar stórann þátt og lóðarverð er þar sór þáttur og reyndar skortur á lóðum, en þar hefur Reykjavíkurborg algerlega brugðist svo dæmi sé tekið.

Ég veit ekki hvað ríkið getur gert nema í gegnum íbúðarlánasjóð að sjá svo til að fólk geti fengið lán sem það ræður við að borga af.

Síðan er sú ráðstöfun íbúðarlánasjóðs að selja leigufyrirtækjum hundruð íbúða en neita einstaklingum um sölu á íbúðum sem síðan fara í hendurnar á leigufyrirtækjum. Þar hefði kannski ríkið og/eða Alþingi getað gripið inní, en ekkert var gert.

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.3.2017 kl. 21:38

6 identicon

Það er rétt hjá þér Tómas að það sem ég nefndi hér að ofan kemur láglaunafólki ekki að notum. Við vitum báðir að það eina sem kemur því fólki að notum er búseturéttur eins og tíðkast í löndunum í kringum okkur. Þar er sofanaháttur ríkis og sveitarfélaga algjör.

Það að banna fólki að setja eignina sína eða hluta af sinni eign í skammtímaleigu er ekki lausn enda engin trygging fyrir því að slíkar eignir fari í langtímaleigu í staðin. Fólki finnst spennandi að standa í þessari skammtímaleigu og eru ekki endanlega til í að standa í langtímaleigu.

Ég veit tvö dæmi þess að fólk sem fjárfesti í sinni fyrstu eign keypti sér eign með einu gestaherbergi sem það leigir út á airbnb til að standa straum af afborgunum af okurláninu sínu. Eitthvað sem ekki væri hægt ef herbergið væri í langtímaleigu. Það fólk vill hafa þann sveigjanleika að geta boðið uppá gistingu á sumrin og yfir eitthvað ákveðið tímabil. Það vill t.d geta haft íbúðina útaf fyrir sig yfir hátíðirnar.

Finnst þér rétt að banna slíka sjálfsbjargarviðleytni?

Pétur (IP-tala skráð) 11.3.2017 kl. 22:44

7 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Tek undir með Tómasi. Leiguverð er orðið alltof hátt Pétur. Það orsakast af skorti sem kemur beinlínis af því að meirihluti lausra íbúða fer í skammtímaleigu handa ferðamönnum. Ef skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis yrði bönnuð( sem færa má full rök fyrir þar sem íbúðarhúsnæði er ætlað til að fólk hafi þak yfir höfuðið en ekki til atvinnustarfsemis), þá myndi framboðið aukast að sjálfsögðu og leyguverð minnka. Að sjálfsögðu er verið að tala um íbúðir sem leigðar eru í heilu lagi og þá allt árið. Ekki útleiga á einstökum herbergjum eða leiga í skamman tíma meðan eigandinn bregður sér af bæ. En ef eigandi íbúðar á tvær eða fleiri íbúðir , þannig að hann býr ekki í íbúðinni sem hann leigir út þá er sjálfsagt að skilyrða leigutímamm í að minnsta kosti eitt ár. Það kom reyndar fram í frétt í mogganum að það er í dag hagkvæmara að leiga til langs tíma en til skamms tíma þegar allur kostnaður er tekinn inn í dæmið. Ég er fylgjandi því að neyðarlög verði sett á leigusala. Það er algjör nauðsyn eins og staðan er orðin í dag.

Jósef Smári Ásmundsson, 12.3.2017 kl. 08:22

8 identicon

Sæll.

Það vantar ekki hryllingssögurnar í dag af leigumarkaðinum. Margt er ábyggilega satt og rétt en í margt vantar líka ábyggilega hluta sögunnar.

Ég hef samúð með leigjendum en eru lífeyrissjóðirnir ekki að lána stórum félögum sem kaupa margar íbúðir í einu? Má þá ekki líka benda fingri á lífeyrissjóðina? Hvers vegna fjárfesta lífeyrissjóðirnir svona mikið hérlendis? Er það kannski vegna haftanna? Má þá ekki benda fingri á ríkið? Hvers vegna er svona mikið mál að byggja íbúðir? Má þá ekki benda fingri á sveitarfélögin?

Vandinn er einfaldlega ekki þannig að hægt sé að benda bara á airbnb.

Hvað með þá íbúðareigendur sem vilja ekki standa í því stappi og þeirri áhættu sem fylgir því að hafa leigjendur? Vita menn ekki að afar erfitt er að losna við leigjendur sem ekki standa við sinn hluta? Þar hallar verulega á leigusala - þökk sé ríkinu. Túristinn fer alltaf eftir örfáa daga.

Hugmynd Jósefs Smára um neyðarlög á leigusala er algerlega út í hött. Ef þvinga á menn til að leigja eignir sínar bara til einstaklinga með lögheimili hérlendis eða á einhverju ákveðnu verði mun draga úr framboði á eignum (og færri túristar koma hingað sem þýðir minni gjaldeyristekjur).

Stór hluti vandans er hjá ríkinu vegna þeirra leikreglna sem það setur. Frjáls markaður, þar sem ekki hallar á annan aðilann, er alltaf bestur. Frjáls markaður, þar sem ekki er verið að banna fólki að fara með sínar eignir eins og því listir, er alltaf bestur. 

Þökk sé öllum þessum besserwisserum eru leigjendur í þeim bobba sem þeir eru í í dag :-(

Ég tek hér undir með Pétri að ofan - sá maður hefur í það minnsta haft fyrir því að kynna sér málin öfugt við marga. Ég tek ofan af fyrir því!!

Helgi (IP-tala skráð) 12.3.2017 kl. 12:57

9 identicon

Ég heldu að greining Péturs sé góð nálgun. Auðvitað er ekki hægt að segja að vandamál leigjenda sé tilkomin vegna einhvers eins atriðis.

Í fyrsta lagi þá hafa lífeyrissjóðir kynnt undir þennan markað með því að láta stórum leigu- og fjárfestingafélögum í té fjármuni til þess að kaupa upp heilu hverfin. Það talar fáir um þetta?

Í öðru lagi þá hefur fjöldi innfluttra verkamanna, og starfsmanna í láglaunastörfum sest hér að í nafni framkvæmda og gróðabralls fyrirtækja og verktaka. Þetta fólk er að leigja mikið af íbúðum þ.e. 2 o g 3 saman og deila öllu. 4 hver íbúi í Reykjavík er af erlendu bergi brotinn. Á næstu árum munu við sjá aukningu í þessum hópi.

Af hverju hafa ekki fleiri lóðir verið skipulagðar á síðustu árum. Það vissu flestir sem að bjuggu t.d. í Vesturborginni að það væri lítið framboð og búið að vera í mörg ár.

Byggingakostnaður er líka kominn út úr kortinu og verktakar hafa sprengt upp verð margfalt meira en eðlilegt er og fasteignasalar hafa makað krókinn á því.

Þessi hringekja hefur því leitt til þess að þeir sem að kaupa íbúðir eru með mjög háa afborganabyrði og ef þeir kjósa að leigja út nýlegar eignir, t.d. 2 herb. íbúð á 40 milljónir þá er ljóst að hún þarf að leigjast út á kr. 250 þúsund á mánuði sé að fjárfestingin standi almennilega undir sér.

Ég er ekki viss um að bann við Airbnb muni leysa vanda leigjenda því þeir hafa aðlagað verð sín og munu hækka leiguna líka. Rekstrarkostnaður á fasteignum í Reykjavík er kominn út úr kortinu líka.

Á sama tíma og við flytjum inn láglaunastörf t.d. í ferðaþjónustunni þá fara flestir okkar unglingar í háskóla að læra fög sem eru ekki arðbær og vinnuþátttaka er lítil. Sparnaður er enginn þannig að fólk á ekki neitt. Þegar ég sjálfur kom út á markaðinn þá átti maður peninga í sparimerkjum til þess að kaupa sína fyrstu íbúð en það er breytt líka.

Deilihagkerfið er afsprengi á þeirri staðreynd að flugfélögin eru búinn að margfalda framboð sitt í ferðum og erl. félög eru líka mun virkari. Einhversstaðar verður þetta fólk að vera ekki verður það bara á hótelum sá tími er líka liðinn. Boð og bönn munu ekki leysa vandann heldur langtímahugsun bæjar- og sveitarfélaga í fjölgun lóða.

Það gengur ekki þessi kommúnismi að banna fólki að leigja eignir sínar í skammtímaleigu. Margir eru bara að reyna að bjarga sér og sínum. Á að banna Icelandair og Wow að flytja alla þessa útlendinga hingað? Það má ekki heldur gleyma því að hótelmafían vill halda í alla þræði og tryggja sér og fjárfestunum hámarksarð með hrikalegum verðum á hótelberbergjum. Airbnb er ein afleiðing af því. Hugsið málin og komið svo til baka.

Guðmundur (IP-tala skráð) 12.3.2017 kl. 13:56

10 identicon

Tómas Ibsen þú aðhyllist hugmyndafræði sem er einföld þ.e. að banna mönnum að nota eignarétt sinn. Af hverju eigum við ekki bara að minnka flugframboð til þess að ná jafnvægi. Af hverju beitum við ekki kvóta á hótel eða bönnum fleiri hótelbyggingar.

Afleiðing vandans er nefninlega bundin þeirri staðreynd að það er búið að margfalda framboð á ferðum til landsins.

Deilihagkerfið er komið til að vera og það er staðreynd. Boð og bönn munu ekki leysa vandann og ég er hræddur um að eigendur fasteigna munu bara hækka leiguverð sín enn frekar ef þeir eru þvingaðir til þess með lagasetningu.

Guðmundur (IP-tala skráð) 12.3.2017 kl. 14:04

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Vandinn á íbúðamarkaði hér á landi er margþættur en aðal ástæðan er skortur á afkastagetu verktaka vegna skorts á iðnaðarmönnum. Í hruninu fóru margir verktakar á hausinn og margir iðmaðarmenn missstu vinnuna. Stór hluti þeirra flutti úr landi og eru enn erlendis. Við þeteta bætist að mikið er byggt af hótelum vegna fjölgunar ferðamanna og fer því stór hluti af afkastagetu verktaka í að byggja hótel. Það er því ekki meiri afkastageta eftir til að byggja íbúðrhús. Þetta stafar ekki af skori á lóðaframboði heldur skorti á afkastagetu verktaka enda eru engir verktakar að sækjast efir lóðum undir blokkir því þeir eru flestir enn að byggja á þeim lóðum sem þeir hafa þegar fengið eða eru uppteknir við hótelbyggingar.

Ef við bönnum Airbnb leigu þá vissulega kosna einhverjar íbúðir úr því kerfi sem fara inn á almenna leigumarkaðinn. En á móti þarf þá að byggja enn fleiri hótel og þá fer enn stærri hluti af afkastagetu verktaka í hótelbyggingar. Það mun þá leiða til þess að minna verður byggt af íbúðahúsnæði og því mun þetta flótlega gera ástandið enn verra því það besta við deilihagkerfið er að það er góð leið til að nýta hlutina betur og dregur þannig úr skorti.

Sigurður M Grétarsson, 13.3.2017 kl. 10:28

12 identicon

Ég held að menn geta ekki verið að afsaka sig endalaust og tala endalaust um hrunið. Það er liðin tíð ...en ég veit ekki hvort það hafi verið gerð einhver mæling hvað mikið af iðnarmönnum fór af landi brott. Það væri fróðlegt að sjá.

Ég er sammála þér Sigurður G. að afkastagetan er öll í hótelgeiranum og það hjálpar okkur ekki. Afhverju bönnum við þá ekki mönnum að byggja hótel eða setjum kvóta á það. Af hverju bönnum við fólki að ráðstafa t.d. einni eign og ákveða hverjum það leigir. Breytir það einhverju hvort við leigjum útlendingum, eða aðfluttum útlendingum eða Íslendingum? Á ríkið að vera með stjórnsemi?

Ég held að deilihagkerfið sé komið til að vera og þessar íbúðir sem fara í leigu til ferðamanna muni einungis hækka í verði því menn aðlaga sig að aðstæðum. Ég veit þess dæmi að Airbnb hafi hjálpað ungu fólki að kaupa og borga af eignum sínum enda stendur það ekkert undir þessum afborgunum nema að fá hærri leigu og margir að reyna að bjarga sér. Kommúnisminn í boðum og bönnum leysir ekki málin. Við skulum sjá til þegar við verðum búinn að byggja upp eftirlitsiðnað með ærnum tilkostnaði og hvort það skili fleiri íbúðum til leigu. Menn gleyma því líka að 4 hver maður í Rvk er af erlendu bergi brotinn. Þetta er ekkert smáræði og allir verktakarnir eru með erlend vinnuafl líka og það eru svosem ekkert fallegar sögur þar.

Við erum að búa til frekari vandamál með því að banna Airbnb.

Guðmundur (IP-tala skráð) 14.3.2017 kl. 04:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband