Blekkingar framsóknarmanna varðandi 20% leiðina.

Framsóknarmenn hafa haldið því fram að hægt sé að gefa flatan 20% afslátt af öllum lánum án þess að það kosti ríkissjóð neitt vegna þess að hægt sé að nota þær 50% afskriftir, sem verði væntanlega á lánasöfnum gömlu bankanna þegar þau eru seld yfir í nýju bankana til að gera þetta og þetta lendi því á erlendu kröfuhöfunum en ekki okkur Íslendingum. Þessi fullyrðing þeirra stenst enga skoðun og verður farið yfir það hér ásamt því að útskýra af hverju þessi leið gerir hag þeirra verst settu enn verri en hún er en aðeins þeir betur settu hagnist á þessari aðgerð. Best er í upphafi að útskýra þetta með einföldu dæmi. Reyndar verður ekki eins hátt útlánatap í húsæðislánum eins og á lánasöfnunum í heildina en þó er þetta sett upp með þeim hætti.

 

Dæmi:

Fjórir menn skulda Gamla bankanum 10 milljónir kr. hver. Þeir heita A, B, C og D. Við mat á greiðslugetu þeirra er talið að A geti greitt sína skuld að fullu en ekki hinir. Það er talið raunhæft að áætla að B geti greitt 6 milljónir, C geti greitt 3 milljónir en að D geti aðeins greitt 1 milljón. Samtals er talið að þessir fjórir aðilar geti greitt 20 milljónir af 40 milljóna kr. skuldum sínum. Þess vegna er þetta eingarsafn selt til Nýja bankans með 50% afföllum og hann greiðir því 20 milljónir kr. fyrir það.

 

Nú segja framsóknarmenn að vegna 20 milljóna kr. afláttar af þessu lánasafni þá sé hægt að gefa öllum þessum mönnum 20% afslátt af sínum skudlum án þess að það kosti Nýja bankan nokkuð og þar með þurfi skattgreiðendur ekki að greiða neitt enda verði þar aðeins um að ræða 8 milljóna kr. afslátt af kröfum, sem Nýji bankinn hafi fengið 20 milljóna kr. afslátt af. Skoðum þetta nánar.

 

Ef mat á greiðsugetu mannana er rétt þá fær Nýji bankinn endurgreiddar þær 20 milljónir, sem hann greiddi fyrir lánasafnið og fer því á sléttu út úr þessu. Þá lítur dæmið svona út.

 

A greiðir 10 milljónir og fær 0 milljónir í afsátt

B greiðir 6 milljónir og fær 4 milljónir í afslátt

C greiðir 3 milljónir og fær 7 milljónir í afslátt

D greiðir 1 milljón og fær 9 milljónir í afslátt

Samtals eru því greiddar 20 milljónir og 20 milljónir veittar í afsátt.

Nýji bankinn fer því á sléttu út úr þessu enda keypti hann þetta skuldabréfasafn á 20 milljónir og fékk þær greiddar til baka.

 

Ef farin er 20% niðurfærsluleiðin þá gerist þetta:

Veittur er strax 8 milljóna kr. afsláttur og þá eru enn 12 milljónir eftir á afskriftareikningnum.

A skuldar nú 8 milljónir og greiðir þær allar. Þar með eru komnar 8 milljónir til baka upp í 20 milljóna kr. kauverð krafnanna en veittar afskriftir eru enn 8 milljónir og því enn 12 milljónir eftir á afskriftareikningnum.

 

B skuldar nú 8 milljónir en getur hins vegar enn aðeins greitt 6 milljónir. Hann greiðir þær og þá eru komnar samtals 14 milljónir upp í 20 milljóna kr. kaupverð og það hefur þurft að afskrifa 2 milljónir í viðbót og er því búið að afskrifa 10 milljónir og eru því eftir 10 milljónir á afskriftareikningnum.

 

C skuldar nú 8 milljónir en getur hins vegar enn aðeins greitt 3 milljónir. Hann greiðir þær og þá eru komnar samtals 17 milljónir upp í 20 milljóna kr. kaupverð og það hefur þurft að afskrifa 5 milljónir í viðbót og er því búið að afskrifa 15 milljónir og eru því eftir 5 milljónir á afskriftareikningnum.

 

D skuldar nú 8 milljónir en getur hins vegar enn aðeins greitt 1 milljón. Hann greiðir hana og þá eru komnar samtals 18 milljónir upp í 20 milljóna kr. kaupverð og það hefur þurft að afskrifa 7 milljónir í viðbót og er því búið að afskrifa 22 milljónir og er því ekki eftir neitt á afskriftareikningum og reyndar þarf að fjármagna 2 milljónir í viðbót til að dekka allar þessar afskriftir.

 

Nýji bankinn hefur því aðeins fengið 18 milljónir til baka af þeim 20 milljónum, sem hann greiddi fyrir skuldabréfsafnið. Hann hefur því tapað 2 milljónum á þessum viðskiptum og það lendir á eigendum hans, sem eru skattgeiðendur að fjármagna það. Svona lítur dæmið út varðandi greiðslur og afskriftir.

 

A greiðir 8 milljónir og fær 2 milljónir í afsátt

B greiðir 6 milljónir og fær 4 milljónir í afslátt

C greiðir 3 milljónir og fær 7 milljónir í afslátt

D greiðir 1 milljón og fær 9 milljónir í afslátt

Samtals eru því greiddar 18 milljónir og 22 milljónir veittar í afsátt.

 

Eini munurinn á þessu og stöðunni, sem verið hefði ef ekki hefði verið farið í 20% flata niðurfellingu er að A greiðir 2 milljónum minna en ella. Hann er því sá eini, sem hagnast á 20% flötu niðurfellingunni.

 

Það er vissulega hægt að halda því fram að B, C og D hafi allavega ekki skaðast á þessu en sú fullyrðing stenst ekki þegar betur er að gáð. Þeir þurfa nefnilega eins og aðrir skattgreiðendur að fjármagna 2 milljóna kr. afsláttinn til A. Ef við gerum ráð fyrir að þeir þurfi allir að taka jafnan þátt í því þá þurfa þessir fjórir skattgreiðsendur að greiða hálfa milljón á mann til að fjármagna það.

 

Þar með verður staðan sú að A hagnast um 1,5 milljónir á 20% niðurfellingunni eftir að tillit hefur verið tekið til aukinna skattgreiðslna hans vegna kostnaðar ríkisins við hana en allir hinir tapa hálfri milljón. Þessi 20% niðurfellingaleið hefur því leitt til þess að byrðar hafa veri fluttar af A yfir á b, C og D.

 

Það er þannig, sem 20% niðurfellingin færir fé frá þeim lakast settu yfir til þeirra betur settu. Það er þess vegna, sem engin stjórnmálaflokkur, sem vill "slá skjaldborg um heimilin" vill fara þessa leið.

 

Látum ekki blekkjast af fagurgala þeirra, sem eru að dásama flata niðurfellingu skulda. Látum ekki blekkjast af þeim rangfærslum og blekkingum, sem koma fram í útskýringum þeirra á því hvers vegna þessi leið á að vera svona góð.

 

Kjósum ekki þá flokka, sem boða flata niðurfellingu skulda. Slíkar aðgerðir gera slæmt ástand enn verra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband