Afnemum 70 ára regluna hjá stofnunum Kópavogs.

Ég heiti Sigurður M. Grétarsson og gef kost á mér í 2-3. sætið í flokksvali Samfylkingarinnar í Kópavogi.

 

Eitt af því sem ég vil beita mér fyrir er að leggja niður 70 ára regluna hjá starfsmönnum Kópavogs. Okkur ber engin skylda til að hafa hana jafnvel þó hún sé í kjarasamningum ákveðinna starfshópa því það að afnema hana leiðir til aukinna réttinda starfsmannanna. Í raun felst í þessu ákvæði réttur Kópavogs til að segja starfsmönnum sínum upp án nokkurrar annarrar ástæðu en að hafa náð 70 ára aldri.

 

Ég vil taka það fram að þetta hefur ekkert með eftirlaunaaldur að gera. Eftirlaun fá eldri borgarar frá annars vegar lífeyrissjóðum sínum og frá Tryggingastofnun ríkisins. Það að afnema 70 ára regluna hjá starfsmönnum bæjarins breytir engu um þau réttindi sem þeir hafa þar. Þetta mun ekki heldur á neinn hátt minnka möguleika þeirra sem vilja hætta fyrr að vinna að gera það enda mun afnám 70 ára reglunnar ekki skylda neinn til að vinna lengur heldur einungis gefa þeim rétt til þess sem vilja gera það.

 

Helstu rökin gegn því að afnema 70 ára regluna eru þau að það þurfi að koma unga fólkinu í vinnu og að það sé erfitt fyrir yfirmenn í opinberum stofnunum að þurfa að segja við menn sem hafa unnið fyrir þá jafnvel áratugum saman að þeir ráði ekki lengur við starfið og því þurfi að láta þá fara.

 

Hvað fyrri rökin varðar þá er mjög ólíklegt að það muni minnka atvinnuleysi meðal ungs fólks þó eldir borgarar fái að vinna fram yfir 70 ára aldur. Það hefur sýnt sig hjá þeim ríkjum sem hafa reynt að draga úr atvinnuleysi ungs fólks með því að fá eldri borgara til að fara fyrr á eftirlaun að þó það takist að fá marga eldri borgara til að fara fyrr á eftirlaun þá hefur það ekki dregið úr atvinnuleysi meðal ungs fólks. Það er því mjög ólíklegt að það að afnema 70 ára regluna auki atvinnuleysi meðal ungs fólks.

 

Hvað seinni rökin varðar þá er alltaf hægt að vera með sérstaka læknisskoðun eða annars konar úttekt þegar starfsmenn hafa náð ákveðnum aldri til að meta hæfi þeirra til að sinna starfinu. En allavega geta þessi óþægindi fyrir yfirmenn ekki réttlætt það að taka rétt eldri borgara til að halda áfram að vinna hafi þeir vilja og getu til þess.

 

Ef menn óttast að þetta hafi slæmar afleiðingar er alltaf hægt að gera þetta í skrefum og sjá til hvernig það kemur út og væri hægt að byrja á því að hækka aldursviðmiðið um einhver ár og sjá til hvort það leiði til einhverra alvarlegra vandamála. Síðan er hægt að taka stærri skref síðar. En best væri að afnema einfaldlega 70 ára regluna strax.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband