9.9.2009 | 18:13
Atriði, sem flestir virðast gleyma varðandi Icesave.
Margir fara nú hamförum yfir samþykkt Alþingis á Icesave samningum og segja að með honum hafi þeir þingmenn, sem samþykktu samninginn kallað miklar skuldir yfir þjóðina. Það, sem þessir aðilar virðast gleyma er að í raun var það samþykkt neyðarlaganna í október, sem kallaði þessi útgjöld að mestu eða öllu leyti yfir okkur. Það var það ákvæði neyðarlaganna að innistæðueigendur í ísenskum útibúum bankanna fengju allt sitt greitt í topp, sem gerði það.
Í tilfellum Kaupþings og Glitnirs voru erlendu starfsstöðvar bankanna í formi dótturfélaga og voru því starfsstöðvarnar á Íslandi í sérstöku fyrirtæki og starfsstöðvarnar erlendis í öðrum fyrirtækjum. Því hafði þessi ákvörðun ekki áhrif á stöðu innistæðueigenda í erlendum starfsstöðvum þeirra banka. Hvað Landsbankann varðar þá voru starfsstöðvarnar erlendis í formi dótturfélaga og þar með voru bæði innlendar og erlendar starfsstöðvar bankans hluti af sama fyrirtækinu or þar með sama þrotabúinu.
Þar með eru þeir peningar, sem notaðir eru til að greiða innistæðueigendum sínar innistæður teknar úr sama pottinum. Það gerir það að verkum að þegar ekki er til í þrotabúinu nægir peningar til að greiða allar innistæður þá er það tekið frá innistæðueigendum í erlendum starfsstöðvum Landsbankans þegar innistæðueigendur í innlenndum starfsstöðvum hans fá sitt greitt að fullu úr þrotabúinu. Þetta er hægt að sýna með einföldu dæmi þar, sem þetta er sett upp með einfölduðum hætti.
Gefum okkur að bankinn hafi verið með þrjá viðskiptavini, einn innanlands og tveir erlendis. Allir eiga þeir 12 milljónir inni í bankanum eða samtals 36 milljónir. Nú fer bankinn í þrot og úr þrotabúinu fást aðeins 18 milljónir eða helmingur innistæðnanna. Að öllu eðlilegu á þá að greiða öllum innistæðueigendunum helming innistæðna sinna eða 6 milljónum á mann. Hins vegar tekur Alþingi þá ákvörðun að innitæðueigandinn á Íslandi fái sinn hlut greiddan í topp. Hann fær því 12 af þessum 18 milljónum og eru þá aðeins 6 milljónir eftir fyrir hina tvo og fá þeir því aðeins 3 milljónir á mann í stað 6 eins og þeir eiga rétt á.
Þar, sem þetta gerist vegna samþykktar Alþigis, þá ber Ríkissjóði Íslands að bæta erlendu innistæðueigendunum skaðann, sem þeir verða fyrir vegna þessarar ákvörðunnar. Það er hægt að gera með beinni greiðslu eða með því að samþykkja Icesave samninginn. Í þessu efni skiptir engu máli þó stjórnvöld erlendis hafi lagt út fyrir innistæðum í sínum löndum. Það að íslensk stjórnvöld tóku yfir Landsbankann og greiddu út úr honum setur þá skyldu á herðar þeirra að sjá til þess að erlendir innistæðueigendur, eða þeir sem leggja út fyrir innistæðum þeirra, skaðist ekki á þeirri aðgerð. Sé það ekki gert er það hreinn og klár þjófnaður úr þrotabúinu.
Til að innistæðueigendurnir erlendis fari skaðlaust út úr þessu þarf því Ríkissjóður Íslands að setja 6 milljónir inn í þrotabúið. Þó þær greiðslur fari þá til erlendu innistæðueigendanna þá er þetta í raun ekki stuðningur til þeirra heldur er þetta stuðningur við íslenska innistæðueigandann því þetta er í raun sú upphæð, sem hann fékk úr þrotabúinu umfram sinn hlut úr því.
Staðreyndin er nefnilega sú að enn á eftir að gera upp þær greiðslur til innistæðueigenda í íslenskum útibúum Landsbankans, sem þeir hafa fengið umfram sinn hlut úr þrotabúi bankans. Það var fjármangað með því að taka þá upphæð úr þrotabúinu og taka hana þar með af innistæðueigendum í erlendum starfsstöðvum bankans. Það er ekkert, sem réttlætir það að láta innistæðueigendur í erlendum starfsstöðvum bankans greiða fyrir þessar umframgreiðslur til innistæðueigenda í innlendum starfsstöðvum bankans. Slíkt væri eins og áður sagði hreinn og klár þjófnaður úr þrotabúinu og slíkt stæðist aldrei fyrir neinum dómstóli. Það er meira að segja vafamál að það standis fyrir dómstólum að breyta lögum þannig að innistæður fari í forgang fram fyrir aðrar kröfur eftir að ljóst sé að bankinn sé á leiðinni í þrot þrátt fyrir að það sé í samræmi við reglur í flestum öðrum löndum. Það má því alveg vera ljóst að það mun aldrei standast að mismuna innistæðueigendum með þessum hætti hvað varðar greiðslur úr þrotabúinu. Greiðslur frá Ríkissjóði Íslands eru hins vegar annað mál.
Ekki veit ég hversu háar þær greiðslur eru samtals, sem íslenskir innistæðueigendur í heild hafa fengið umfram sinn hlut úr þrotabúinu. Það veit engin fyrr en ljóst er hvað fæst fyrir eignir þrotabúsins. Ég efast um að það sé mikið lægri upphæð en nemur Icesave samningum og við skulum hafa í huga að enn hefur engin boðist til að lána Ríkissjóði fyrir slíku uppgjöri öfugt við Icesave samninginn.
Látum því þá þingmenn, sem samþykktu Icesave samninginn en ekki neyðarlöginn njóta sanmælis. Það var ekki með samþykkt ríkisábyrgðar á Iceseve samningum, sem þessar klyfjar voru lagðar á þjóðina. Það gerðist að mestu eða öllu leyti með samþykkt neyðarlaganna í október.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.