Leiða skattalækkanir til aukins hagvaxtar?

Stærstu kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni núna eru skattalækkanir en á sama tíma aukin ríkisútgjöld. Um miklar skattalækkanir er að ræða í tillögum þeirra. Þegar þeir eru spurðir hvernig þetta gengur upp þá svara þeir að skattalækkanirnar muni leiða til aukins hagvaxtar og þar með auka tekjur ríkisins þannig að tekjur hans verði hærri en ella þrátt fyrir lækkun skatthlutfalla.

Þessar fullyrðingar sínar byggja þeir á hinni svokölluðu Laffer kenningu í hagfræði. Þessi kenning gengur út á það að með hækkandi skattprósentu lækkar alltaf tekjuaukinn af hverri prósentuhækkun skatta vegna þess að íþyngjandi skattar dragi úr hvata til að vinna og auki svarta atvinnustarfsemi. Á endanum verði þessir neikvæðu þættir yfirsterkari tekjuaukanum af hækkaðri prósentu og því hætti heildartekjur ríkisns að hækka og fari á endanum lækkandi. Við þær aðstæður aukist tekjur ríkissjóðs af því að lækka skattprósentur.

Þessi kenning hefur verið mikið rannsökuð og niðurstaðan er sú að það er svona leytni en það er hins vegar óljósara við hversu háa skattprósentu toppnum í mögulegum tekjum er náð. Hins vegar hafa flestar rannsóknir bent til þess að þetta hlutfall sé á bilinu 60 til 80 prósent.

Tekjuskattprósentur eru ekki svo háar hér á landi. Því er ljóst að lækkun á tekjuskattprósentum munu lækka tekjur ríkissjóðs.

Þá er sagt að þetta sé bara þannig til skamms tíma. Lækkuð skattprósenta muni auka hagvöxt sem á endanum mun leiða til meir tekna fyrir ríkissjóð. Þessi kenning var nokkuð víðtæk fyrir nokkrum áratugum en flest bendir til þess í dag að hún standist ekki nema í undantekningartilfellum. Til dæmis hafa þau lönd sem mestan hagvöxt hafa haft í Evrópu seinustu áratugi verið þau lönd sem hafa haft hæstu skattana og þar með hæstu ríkisútgjöldin.

En þetta er líka byggt á kenningum frá fyrri hluta síðustu aldar um að í kreppu eigi að reka ríkissjóð með halla til að koma hjólum atvinnulífsins á skrið. Hugmyndin með því að gera það með skattalækkunum er sú að það auki neyslu sem fjölgi störfum í atvinnulífinu sem enn auki á neyslu og vo koll af kolli. Þessi kenning hefur líka beðið mikin hnekki þó hún virki við ákveðnar aðstæður. Margar misheppnaðar tilraunir til að glæða atvinnulífið með hallarekstri ríkissjóðs hafa leitt athyglina af því sem kalla hefur veri "ruðningsáhrif" slíkra aðgerða. Aðalatriðið í þeim áhrifahætti er áhrif hallareksturs ríkissjóðs á fjármálamarkaðinn. Ríkissjóður þarf að taka lán til að fjármagna hallarekstur sinn. Þar keppir ríkissjóður við fyrirtæki sem vilja fá lán til atvinnuskapandi fjárfestinga og tekur þar með lánsfé frá þeim. Þar að auki hækka þessi inngrip ríkisins vexti. Það leiðir til þess að bæði skuldsett heimili og fyrirtæki hafa minna milli handanna vegna þess að kostnaður þeirra við vaxtahækkanir er meiri en ávinningur þeirra af skattalækkunum. Þannig leiði þetta á endanum til þess að neysla minnkar í stað þess að aukast.

Þessar aðgerðir gagnast fyrst og fremst þar sem ástandið er þannig í kreppu að margar verksmiðjur hafi lokað og standi auðar með öll eða flest tæki og tól til staðar. Þá þarf ekkert annað en að mæta með mannskap, dusta út rykið og smyrja vélarnar til að setja framleiðslu í gang. Við þær aðstæður þarf litlar fjárfestingar til að koma framleiðslu af stað og því er hækkun vaxta eða skortur á lánsfé mun minni hindrun en ella og því vanti fyrst og fremst meiri innlenda eftirspurn eftir framleiðsluvörum fyrirtækisins til að koma rekstri af stað.

Málið er hins vegar það að þannig er ekki staðan hér á landi. Það er einna helst í sjávarútvegi sem slíkt er að finna en það er afleiðing kvótakerfisins en ekki skorts á eftirspurn auk þess sem megnið af efirspurninni er erlend og því hjálpar aukin innlend neysla ekki til.

Annað sem dregur verulega úr gagnsemi slíkra aðgerða er ef neysluvörur heimila eru að stórum hluta innfluttar. Þá verður aukin eftirspurn á framleiðsluvörum innlendra fyrirtækja lægra hlutfall eftirspurnaraukningar auk þess sem það hefur óheppileg áhrif á viðskiptajöfnuðinn.

Síðan er það líka til að minnka líkurnar á að slíkar aðgerðir heppnist ef skuldir ríkissjóðs eru miklar því þá finnur ríkissjóður enn meira fyrir vaxtahækkunum. Þannig er staðan hér á landi.

Það er því fátt sem bendir til þess að efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins hjálpi til við að auka hér hagvöxt og þar með bæta lífskjör og minnka atvinnuleysi. Þær auka bara hallarekstur ríkisins og skrúa upp vexti. Á því tapa allir nema þeir fjármagnseigendur sem njóta góðs af hækkun vaxta.

Það vitlausasta sem kjósendur geta því gert er að kjósa Sjálfstæðifslokkinn með það að augnarmiði að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þeir eiga eftir að verða fyrir vonbrigðum ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Þessar fullyrðingar sínar byggja þeir á hinni svokölluðu Laffer kenningu í hagfræði. Þessi kenning gengur út á það að með hækkandi skattprósentu lækkar alltaf tekjuaukinn af hverri prósentuhækkun skatta vegna þess að íþyngjandi skattar dragi úr hvata til að vinna og auki svarta atvinnustarfsemi."

Lækkar eftir að vissu marki er náð.  Þess vegna heitir þetta Laffert Kúrvan.

Þessi kenning hefur verið mikið rannsökuð og niðurstaðan er sú að það er svona leytni en það er hins vegar óljósara við hversu háa skattprósentu toppnum í mögulegum tekjum er náð.

Fer eftir ýmsu, eins og allt annað, býst ég við.

Hins vegar hafa flestar rannsóknir bent til þess að þetta hlutfall sé á bilinu 60 til 80 prósent.  Tekjuskattprósentur eru ekki svo háar hér á landi.

Gildir þetta bara um tekjuskatt?  Nei, veistu, ég held ekki.  Tekjuskatturinn er bara helmingurinn af því fé sem rænt er af okkur.  Heildarskattprósentan er yfir 80%.

Því er ljóst að lækkun á tekjuskattprósentum munu lækka tekjur ríkissjóðs.

Það er ekkert víst.  Vissir þú að sjómenn hætta bara að vinna rétt áður en þeir fara upp í næsta þrep?

Til dæmis hafa þau lönd sem mestan hagvöxt hafa haft í Evrópu seinustu áratugi verið þau lönd sem hafa haft hæstu skattana og þar með hæstu ríkisútgjöldin.

Þau lönd eru?

En þetta er líka byggt á kenningum frá fyrri hluta síðustu aldar um að í kreppu eigi að reka ríkissjóð með halla til að koma hjólum atvinnulífsins á skrið.

Hér er einhver að misskilja eitthvað.  Það á ekkert að reka ríkissjóð með halla, nokkurntíma.  Stundum getur hjálpað að hann dæli út pening, en ef kerfið er allt rétt sett upp, þarf þess ekki.

Margar misheppnaðar tilraunir til að glæða atvinnulífið með hallarekstri ríkissjóðs hafa leitt athyglina af því sem kalla hefur veri "ruðningsáhrif" slíkra aðgerða.

Þar hefur verið ætt af stað án þess að hugsa.  Það er mjög algengt.  Enda er heilinn bara líffæri til þess að kæla blóðið.

Annað sem dregur verulega úr gagnsemi slíkra aðgerða er ef neysluvörur heimila eru að stórum hluta innfluttar.

Lát oss sjá... mjólk... kjöt... fiskur...

Mikilvægustu neyzluvörurnar eru ekki innfluttar.  Bensín er það.  Það er vissulega mikilvægt.

Þá verður aukin eftirspurn á framleiðsluvörum innlendra fyrirtækja lægra hlutfall eftirspurnaraukningar auk þess sem það hefur óheppileg áhrif á viðskiptajöfnuðinn.

Hvernig þá?  Við kaupum varla meira en sem nemur sölu, er það?  nema við séum þau flón að taka lán fyrir öllu saman.

Það er því fátt sem bendir til þess að efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins hjálpi til við að auka hér hagvöxt og þar með bæta lífskjör og minnka atvinnuleysi.

Þær munu vissulega bæta lífskjör allra launamanna sem nemur lækkuninni.  Það dreg ég ekki í efa.

Hvort þær minnka atvinnuleysi er allt annað mál.

Þær auka bara hallarekstur ríkisins og skrúa upp vexti.

Hallarekstur er hægt að laga á auðveldan hátt: bara fækkar nefndum, sendiráðum, ráðuneytum.  Ekkert mál. 

Af hverju ættu vextirnir að hækka?

Það vitlausasta sem kjósendur geta því gert er að kjósa Sjálfstæðifslokkinn með það að augnarmiði að koma hjólum atvinnulífsins af stað.

Kjósendur gætu gert margt verra.

Þeir eiga eftir að verða fyrir vonbrigðum ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda.

Ég ætla ekki að veðja á móti þér með það.

Ásgrímur Hartmannsson, 26.4.2013 kl. 18:29

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það eru fyrst og fremst jaðaráhrif tekna sem hafa áhrif á það hvort menn vilja vinna meira. Ekki skattar sem ekki hafa áhrif á það. Heildartekjur ríkissjóðs eru innan við 40% af landsframleiðslu svo það er ansi langt í 80% skatt.

Þó þú þekkir einhverja sjómenn sem hætta þegar vissum tekjum er náð þá snýst þetta um það hvað meðalmaðurinn gerir. Þetta hefur verið mikið ransakað og niðurstöður þeirra ransókna segja að lækkaðar skattprósentur við núverandi hlutfall minnki tekjur. Svo má líka minna á að þegar skattarnir voru hækkaðir þá hækkuðu tekjurnar. Það er því rökrétt að álykta að ef prósentan er lækkuð aftur þá lækki þær.

Staðreyndin er sú að helmingur af neysluvörum heimilanna eru innfluttar vörur. Þar kemur ýmislegt meira til en bensín.

Vextir lúta lögmáli framboðs og eftirspurnar eins og flest önnur verðmyndun. Því leiðir aukin eftirspurn ríkissjóðs eftir lánsfé til þess að vextir hækka. Það leiðir til þess að lífskjör skuldugra fjölskyldna versna og það að öllum líkindum meira en nemur ávinningi þeirra af skattalækkunum.

Sigurður M Grétarsson, 27.4.2013 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband