23.12.2008 | 15:43
Fulltrúar stéttafélaganna eiga líka að fara út.
Stjórnun lífeyrissjóðs á lítið sameiginlegt með stéttafélagabaráttu. Þó það hafi verið aðilar vinnumarkaðarins, sem komu lífeyrissjóðakerfinu á í upphafi þá tel ég það vera tímaskekkju að þeim sé stjórnað af þeim núna. Það hefur sýnt sig að lífeyrissjóðum hefur verið beitt í öðrum tilgangi en að hámarka ávöxtun fjársins og hefur það oft verið vegna aðkomu stéttafélaganna. Fjármunum lífeyrissjóðanna hefur verið varið í hlutabréf í fyrirtækjum í heimabyggð þrátt fyrir að samspil áhættu og vonar um ávöxtun hefur verið afleit. Í þeim tilfellum var féð notað í það að efla atvinnu í heimabyggð í stað þess að ávaxta fé sjóðanna.
Gallinn við starfstengda lífeyrissjóði er sá að örorkuáhætta er mjög mismunandi milli atvinnugreina. Því fá sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum með mikla örorkuáhættu lakari ellilífeyrir en sjóðsfélgagar í öðrum lífeyrissjóðum með minni örorkuáhættu miðað við sömu greiðslur í sjóðina. Þetta þarf að laga. Ein leiðin getur reyndar verið sú að framlag vinnuveitenda sé hærra í sjóðum með háa örorkuáhættu. Þannig myndu vinnuveitendur greiða fyrir það að mikil örorkuáhætta er í þeim starfsgreinum, sem þarf til þeirrar starfsemi, sem þau eru í. Einnig væri hægt að hætta starfstengingu lífeyrissjóða. Ef það er gert þarf að skilgreina einhverja aðra tengingu eða gefa launþegum frelsi í að velja sinn lífeyrissjóð. Kosturinn við að gefa launþegum frelsi í að velja sinn lífeyrissjóð er sá að þá geta sjóðsfélagar greitt "atkvæði með fótunum" ef þeim líkar ekki fjárfestingastefna lífeyrissjóðsins. Ókosturinn er hins vegar sá að það gerir stjórnendum lífeyrissjóðanna erfiðara fyrir að stýra fjárfestingastefnu sjóðanna með hámarksárangri ef mikil óvissa er um hversu háar greiðslur koma inn á næstu árin svo ekki sé talað um ef sjóðsfélagar ættu að hafa rétt á að flytja fé milli sjóða.
Ef menn vilja ekki fullt frelsi af þessari ástæðu en vilja ekki heldur starfstengda skiptingu þá þarf að finna einhverja nýja skiptingu. Hins vegar er líka hægt að fara þá leið að vera með örorkutryggingar í sérstökum lífeyrissjóði, sem hluti iðgjalda fer í og þar væri um að ræða einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þá þyrftu hinir lífeyrissjóðirnir einungis að sjá um ellilífeyrir og þá væri ekki örorkuáhættan að þvælast fyrir þeim. Þá væri líka öllum launþegum tryggð sambærileg réttindi hvað örorkulífeyrir varðar en svo er ekki að heilsa í dag.
Vilja atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.