Aukin sveigjanleiki í skólakerfinu meðal annars með því að bjóða upp á áfangakerfi í efstu bekkjum grunnskóla.

Eitt af því, sem ég tel að þurfi að gera í skólamálum er að auka sveigjanleika á, sem flestum námsstigum. Þannig er hægt að gera nám meira einstaklingsmiðað og koma betur á móts við þarfir bæði nemenda og fjölskyldna þeirra. Slíkt þarf ekki endilega að kosta meiri peninga ef farið er að skynsemi í það verkefni.

 

Dæmi um það, sem ég tel að mætti reyna er að bjóða þeim nemendum, sem það kjósa upp á það að taka þrjú til fjögur síðustu ár grunnskóla í áfangakerfi. Að sjálfsögðu er ekki hægt að bjóða upp á það í öllum skólum því það þarf töluverðan fjölda nemenda til að slíkt kerfi verði skilvirkt og væntanlega væri rétt í upphafi að bjóða það aðeins í einum til tveimur skólum. Þeir þyrftu að vera þannig staðsettir að auðvelt væri fyrir nemendur úr öllum hverfum bæjarins að komast í þá. Einnig þyrfti að velja skóla, sem eru nú með verulega vannýtt húsnæði og kemur Kópavogsskóli þar fyrst upp í hugann. Þetta fyrirkomulag hefur gefist mjög vel í framhaldsskólum vegna þess að það bíður upp á mun meiri sveigjanleika en bekkjarkerfi án þess að vera dýrari lausn. Svo vel hefur þetta kerfi gefist þar að það hefur nánast alveg tekið yfir í framhaldsskólum hér á landi þó vissulega séu enn til skólar með bekkjarkerfi enda hentar áfangakerfið ekki öllum nemendum. Því er ekki nokkur vafi í mínum huga að þetta kerfi hentar betur fyrir töluverðan hluta nemenda í efstu bekkjum grunnskóla.

 

Þetta kerfi hentar sérstaklega vel fyrir nemendur, sem ekki hentar sá námshraði, sem er í hefðbundnu bekkjarkerfi. Á það bæði við um nemendur, sem hentar meiri hraði og þeim, sem hentar minni hraði. Einnig hentar þetta vel nemendum, sem hafa mjög mismunandi námsgetu eftir námsgreinum. Það er hægt að bjóða mjög góðum nemendum í tilteknum námsgreinum upp á hraðáfanga þar, sem kennt er í færri kennslustundir en almennt er gert og sparar það þeim þá tíma ásamt því að spara bæjarfélaginu kostnað við kennslu. Einnig er hægt að hafa stöðupróf þar, sem góðir nemendur geta fengð að sleppa ákveðnum áföngum sýni þeir að þeir séu hæfir til að fara strax í næsta eða þarnæsta áfanga. Einnig er hægt að hafa hægáfanga í tilteknum greinum fyrir nemendur, sem hafa laka námsgetu í þeim. Þá væri kennt í fleiri kennslustundir en almennt er og jafnvel í minni hópum. Vissulega verður kostnaðurinn þá meiri en við hefðbundna kennslu en á móti kemur að slíkt getur að talsverðu leyti komið í stað enn dýrari úrræða eins og sérkennslu.

 

Best væri ef slík skólaeining kenndi bæði greinar úr efstu bekkjum grunnskóla og fyrstu áfanga í kjarnagreinum í framhaldsskóla. Þannig gætu góðir nemendur verið í þessum skóla jafn mörg ár og aðrir og kæmu upp í framhaldsskóla á sama tíma og jafnaldrar sínir en hefðu hins vegar lokið ákveðnum fjölda eininga í framhaldsskóla þegar þeir hefja þar nám og hafa því styttri viðveru í framhaldsskóla fyrir vikið. Vissulega geta duglegir nemendur náð að klára einhverjar einingar í framhaldsskóla í dag en með þessari aðferð er líklegt að þeir gætu klárað fleiri einingar en í dag án þess að kostnaðurinn verði meiri.

 

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að ekki er síður þörf á að gefa nemendum með mikla námsgetu færi á að fara á sínum hraða og á sinni forsendu í gegnum grunnskólanám heldur en nemendum með lakari námsgetu. Ef bráðgáfaðir nemendur með mikla námsgetu eru látnir fara í gegnum nám á mun minni hraða en námsgetu þeirra hentar þá venjast þeir á að fara létt í gengum nám og að þurfa ekki að hafa mikið fyrir því. Þegar kemur í erfiðara nán þá komast þeir ekki eins vel í gegnum það á gáfunum einum saman og þá lenda þeir oft í vandræðum í námi því þeir hafa ekki vanist því að þurfa að vinna mikið til að ná árangri í námi eins og nemendur með meðalnámsgetu hafa þurft að gera í gegnum tíðina.

 

Annar kostur við áfangakerfið er sá að það verður ekki eins vart við það þó einstakir nemendur fari hægar í gegnum námið eins og í bekkjakerfi. Í raun kemur það illa í ljós hjá þeim, sem ekki hafa hreinlega aðgang af gögnum um námsframvindu þeirra fyrr en að því kemur að þeir halda áfram í áfangakerfinu eftir að jafnaldrar þeirra hafa útskrifast. Vissulega er það ekki gott þegar nemendur þurfa að vera lengur í námi en það er mjög ólíklegt að áfangakerffi leiði til þess að fleiri þurfi lengri tíma til að komast í framhaldsskóla heldur en í bekkjakerfi. Sérstaklega ætti það ekki að vera svo ef hver nemandi hefur val um áfangakerfi eða bekkjakerfi því þá fer hann þá leið, sem hentar honum betur.

 

Það er hægt að auka enn meira á sveigjanleikan og auka möguleika á að bjóða upp á bæðí hæg- og hraðáfanga ef notað er lotukerfi eins og er notað í dag í Mennaskólanum Hraðbraut og stendur til að taka upp víðar. Þá væri hægt að skipta vetrinum upp í til dæmis sex fimm til sex vikna einingar þar, sem hver nemandi væri í færri greinum í einu en hann væri ef um væri að ræða tvær einingar yfir veturinn. Ef síðan væri boðið upp á sjö slíkar einingar, sem kenndar væru á ellefu mánuðum þó hver nemandi fari aðeins í sex nema í undantekningartilfellum væri hægt að auka sveigjanleika fyrir bæðí nemendur, kennara og annað starfsfólk skólanna varðandi orlof. Einnig væri möguleik á að hjálpa nemendum með laka námsgetu að klára nám sitt á jafn mörgum árum og jafnaldrar þeirra ef þeir hafa til þess áhuga og eru tilbúnir að fórna hluta orlofs síns til þess. Einnig væri auðveldara að gefa nemendum með mikla námsgetu færi á að fara fyrr inn í framhaldsskóla en annars væri með því að gefa þeim færi á að taka sjöundu lotuna. Einnig væri hægt að heimila nemendum, sem það vilja að vera til vara með umsókn á sjöundu lotunni fyrir ákveðnar greinar og þannig bæði nýta betur þann fjölda, sem talið er óhætt að hafa að hámarki í hverri grein auk þess að auðvelda duglegum nemendum að flýta fyrir sér í námi. Þeir skilgreina þá tilteknar sex lotur í forgangi og eina lotu þar, sem þeir eru á biðlista. Að lokum má benda á það að þessi leið bætir nýtingu á húsnæði skólanna.

 

Af öllu framansögðu tel ég að þessi leið ætti ekki að auka kostnað skólakerfinu þrátt fyrir að auka verulega sveigjanleika nemenda og gefa þar með mun betri möguleika til að mæta þeim á þeirra eigin forsendum. Jafnel gæti þetta verið ódýrari leið til að mæta þeim, sem ekki hentar hið hefðbundna fyrirkomulag heldur en notaðar eru í dag. Þess vegna tel ég það vel þess virði að prófa þessa leið. Að sjálfsögðu munu menn rekast á ýmis vandamál við að koma þessu á koppinn en ef þetta reynist góð leið getur ávinningurinn orðið mikill fyrir nemendur, kennara og bæjarsjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband