29.6.2009 | 09:34
Raunveruleg einkaframkvæmd eða dulbúin lántaka ríkisins.
Þegar maður les þessa frétt veltir maður því fyrir sér hvort um er að ræða raunverulega einkaframkvæmd eins og til dæmis Hvalfjaraðgöngin eru dæmi um eða hvort um er að ræða dulbúna lántöku ríkisins, sem ekki er hægt að kalla neitt annað en bókhaldsbrellu eða bókhaldsblekkingar.
Sú fjármögnunarleið, sem kynnt var fyrir nokkru síðan varðandi Vaðlaheiðargöng og tvöföldun Suðurlandsvegar er ekkert annað en dulbúin lántaka og þar með bókhaldsblekking. Þar snérist málið um að einkaðailar leggi til fé til framkvæmda og ríkið greiði síðan leigu eða greiði vissa upphæð á hvern bíl, sem fer viðkomandi veg. Á endanum greiðir ríkið því allan kostnaðinn og í flestum tilfellum meiri kostnað en ef ríkissjóður myndi einfaldlega taka lán í eigin nafni til að fjármagna faramkvæmdina. Slíka leið hafa mörg sveitafélög farið síðustu ár til að fjármagna framkvæmdir eins og við íþróttahallir og jafnvel skóla- og leikskólabyggingar. Þau sveitafélög eru nú mörg hver að sligast undan leigugreiðslunum.
Ástæða þess að opinberir aðilar fara stundum þessa leið er sú að ef ríkð eða sveitafélagið byggir þetta í eigin nafni og tekur til þess lán í eigin nafni þá gjaldfærist allur byggingakostnaður í bókhaldi viðkomandi sveitafélags eða ríkisins á byggingartíma og er þar með mikill bókfærður halli á rekstri á þeim tíma. Með því að fara þessa bókhaldsbrelluleið þá gjaldfærast aðeins leigugreiðslurnar á hverjum tíma og því kemur ársreikningur sveitafélagsins eða ríkisins mun betur út á byggingatímanum en kemur síðan reyndar mun verr út eftir að byggingatímanum er lokið. Það líta skammsýnir stjórmálamenn hins vegar á, sem seinni tíma vandamál.
Allt annað er upp á teningnum í þeim tilfellum, sem það eru notendur viðkomandi mannvirkja, sem greiða kostnaðinn. Þá er beinlínis um að ræða sparnað hjá hinum opinbera aðila. Í tilfellum samgönguframkvæmda á þjóðvegakerfinu er um að ræða beinan sparnað fyrir ríkið. Í þeim tilfellum, sem enn stendur til boða að fara gjaldfrítt gömlu leiðina eins og er í tilfelli Hvalfjarðarganga þá eru vegfarendur heldur ekki í verri stöðu en ef ekki væri farið út í framkvæmdina. Þvert á móti eru þeir í betri stöðu bæði hvað það varðar að eiga valkostin að fara áfram gömlu leiðina eða nota nýju veggjaldaleiðina. Þeir eru hins vegar að sjálfsöðgu í verri stöðu heldur en ef farin væri sú leið að láta ríkið borga þó taka verði tillit til þess að þeir eru líka hluti þeirra skattgreiðenda, sem þá væru látnir borga brúsan.
Mér líst því vel á þessa aðkomu lífeyrissjóðanna að samgönguframkvæmdum svo fremi að um sé að ræða einkaframkvæmd þar, sem lífeyrissjóðirnir fá sitt fé til baka í formi greiðslna frá vegfarendum. Sé það ríkið, sem á að greiða þetta til baka í formi svokallaðra "skuggagjalda" eða leigugreiðslna þá líst mér illa á þetta enda munum við skattgreiðendur þá á endanum greiða meira fyrir þessar framkvæmdir heldur en ef ríkið tæki sjálft lán til þessara framkvæmda.
Ég sé hins vegar ekkert að því að einstakar framkvæmdir séu að hluta fjármagnaðar með opinberu fé og að hluta með veggjöldum, svo fremi að hlutur ríkisins sé fjármagnaður beint af ríkinu. Þá sparar ríkið þó þann hluta kostnaðarins, sem vegfarendur greiða.
Það er líka hægt að nota þessa leið til að flýta framkvæmdum þangað til ríkissjóður hefur efni á að fjármagna þær. Þá einfaldlega eru innheimt veggjöld þangað til ríkissjóður heur bolmagn til að taka lánin vegna framkvæmdana yfir á sig og leggja þá niður veggjöldin. Ef ekki væri um flýtingu að ræða vegna einkaframkvæmdarinnar þá væri þá fyrst verið að klára verkið og þá fyrst komin þessi valkostur fyrir vegfarendur að fara þessa leið. Þeirra hagur versnar því ekki við það að hafa valkostin um gömlu leiðina eða veggjaldaleiðina þau ár, sem framkvæmdinni er flýtt en losna síðan við veggjöldin þegar kemur að þeim tíma, sem framkvæmdum annars væri fyrst að ljúka.
Setja 100 milljarða í framkvæmdir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér líst vægast sagt illa á að lífeyrissjóðirnir séu að láta í þetta peninga.
Þegar landið er komið í þrot og lánshæfni þess í flokki með Zimbabwe og Norður-Kóreu og einginn vill lána í þetta, þá er eins og flestum, og ekki minnst stjórnendum lífeyrissjóðana finnist sjálfsagt mál að taka þessa peninga okkar og henda þeim í þetta.
Það er nefnilega svo sniðugt að það þarf ekkert að spyrja þá sem eiga þessa peninga um leyfi...
Lífeyrissjóðirnir eru eingin Byggðastofnun, hjálparstofnun eða AGS.
Eina hlutverk lífeyrissjóðanna samkvæmt lögum er að varðveita og ávaxta þá á sem bestum og öruggustum kjörum.
Ef þeir gera alvöru úr þessum áformum mun ég kæra þá fyrir FME því þá eru þeir að að vanrækja hlutverk sitt og "gambla" með fé lífeyrissjóðanna.
Jón Bragi Sigurðsson, 29.6.2009 kl. 17:53
Það fer allt eftir því hvernig að þessu er staðið. Ef um er að ræða lán til ríkisins með verri kjörum en ríkið fær á almennum markaði þá er sjálfsagt að kæra það. Ef hins vegar er um að ræða lán með sömu vöxtum og ríkið fær frá öðrum þá er ekkert athugavert við það svo fremi að upphæðin hjá hverjum lífeyrissjóði fyrir sig fari ekki upp fyrir ákveðin mörk.
Síðan er þetta spurnin ef ekki er um að ræða lán til ríkisins heldur tekin fyrir einstök vegaframkvæmd, sem markaðsrannsóknir sýna að geri verið arðbær framkvæmd og að hægt sé að ná góðri ávöxtun með innheimtu veggjalda. Þá erum við að tala um allt aðra hluti. Höfum í huga að engin fjárfesting er áhættulaus. Þetta snýst allt um ásættanlega áhættu miðað við arðsvon ef vel gengur.
Þetta á sérstaklega við þegar ávaxta þarf jafn mikið fé og lífeyrissjóðirnir hafa. Það ger ekki hægt án þess að taka nokkra áhættu því áhættulítil eða áhættulausir fjárfestingakostir, sem gefa eitthvað að ráð af sér eru ekki nógu margir til að hægt sé að setja allt fé lífeyrissjóðanna í það.
Við Ísendingar munum halda áfram að ferðast milli staða hér á landi í bílum og því felst ekki mikil áhætta í samgöngumannvirkjum, sem innheimt eru veggjöld af vegfarendum. Aðaláhættan er í upphafi við mat á eftirspurn eftir akstri um viðkomandi mannvirki miðað við tiltekið verð á veggjöldum.
Eina kröfu tel ég að lífeyrissjóðirnir ættu að gera áður en þeir samþykkja að leggja fé í samgöngumannvirki með veggjöldum. Það er að virðisaukaskattur af veggjöldum verði felldur niður. Ég held að ég fari með rétt mál að hvergi í heiminum er innheimtur virðisaukaskattur af veggjöldum, sem ætlað er að greiða upp samgöngumannvirki og síðan eigi að afhenda ríkinu mannvirkið endurgjaldslaust þegar það er búið.
Einnig má nefna það að í raun er engin munur á veggjöldum og bílastæðagjöldum. Af hverju þarf þá að greiða virðisaukaskatt af öðrum þessara hluta en ekki af hinum?
Sigurður M Grétarsson, 30.6.2009 kl. 10:09
Ég verð var við það að þó ég fari hamförum í bloggheimum og víðar að þá virðist nánast einginn hafa áhyggjur af lífeyrissjóðunum nema ég.
Að vísu hefur verið mikið fjaðrafok útaf mútuferðum fulltrúa lífeyrissjóðanna og hæpnum fjárfestingum þeirra í gömlu útrásarbönkunum en þetta er miklu stærra og alvarlegra mál.
Það er ekki bara það að lífeyrissjóðirnir vilji leggja 100 milljarða í þessar framkvæmdir heldur var ég að komast að því að þingið setti bráðabirgðalög um það að lífeyrissjóðunum væri heimilt að stofna eigin fjárfestingafélög og hafa nú þegar planað að leggja í það 75 milljarða(http://www.visir.is/article/2009700771454)
Þetta virðist hafa verið keyrt í gegn á þeim örvæntingar- og upplausnartímabili sem þá ríkti.
Lífeyrissjóðirnir eiga að taka sem allra minnsta áhættu. Nánast einga, það nægir að þeir séu verðtryggðir með eðlilegum bankavöxtum.
Ef t.d. þessir peningar eru öruggari erlendis þá á að hafa þá þar. Einginn veit hvað á eftir að gerast í íslensku efnahagslífi á næstu árum og ef af þessu verður yrði ég ekki hissa þó að eftir einhver ár verði þessi peningar glataðir eða hafa rýrnað stórlega og menn standa frammi fyrir enn einu stórslysinu í meðferð fjármuna á Íslandi.
Sjónarmið þín varðandi virðisaukaskatt, veggjöld og fleira eru sjálfsagt skynsamleg. Málið er bara það að lífeyrissjóðunum ber ekki að hafa neina sem helst skoðun á því. Það er einfaldlega ekki þeirra hlutverk. Þeir eiga heldur ekki að hafa neina skoðun á atvinnuástandi eða pólitík yfirleitt, ekki frekar en ég vil að minn verðtryggði innlánsreikningar með 3% vöxtum hafi neina skoðun á jafnrétti kynjanna eða kvótakerfinum eða álíti það hlutverk sitt að koma að þeim málum á nokkurn hátt.
Við megum ekki gleyma því að þetta er lífeyrissparnaður okkar sem greitt hafa 10-12% af launum okkar í áratugi.
Ef þú nennir að lesa meira um mínar hugleiðingar um þetta, þá er það hér:
http://jon-bragi.blog.is/blog/jon-bragi/
Jón Bragi Sigurðsson, 30.6.2009 kl. 19:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.