HH afla fylgis við aðalkröfu sína með röngum fullyrðingum um það á hverjum kostnaðurinn lendir.

Hagsmunasamtök heimilanna og reyndar líka Framsóknarflokkurinn hafa aflað fylgis við kröfuna um flata niðurfellingu skulda eða "leiðréttingu" eins og HH orða það með upplognum forsendum. Forsendan, sem gefin er gengur út á það að hægt sé að fjármagna þessa aðgerð án verulegs kostnaðar fyrir skattgreiðendur með því að nota varúðarniðurfærslu skuldabréfasafma gömlu bankanna við sölu þeirra til nýju bankanna.

Staðreyndin er hins vegar sú að þá varúðarniðurfærslu er aðeins hægt að nota til að fjármagna óhjákvæmilegar afskriftir lána, sem eru til komnar vegna þess að lántaki getur ekki greitt lán sitt að fullu. Annað hafa kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna ekki samþykkt að taka á sig og það verður ekki hægt að neyða þá til þess nema með dómi frá Hæstarétti ef hann fellst á röksemdur um forsendubrest. Í þessu samkomulagi er endurskoðunarákvæði árið 2012 þar, sem þá á að meta þessar óhjákvæmilegu afskriftir og er nú í raun aðeins verið að borga inn á þessi skuldabréfasöfn þá upphæð, sem talið er öruggt að náist inn frá lántökum þó allt fari hér á versta veg. Árið 2012 er síðan greitt til viðbótar við það miðað við mat, sem þá verður gert á greiðslugetu lántaka.

Ég hef sýnt þetta í dæmum á bloggsíðu minni og má sjá það hér:

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/988554/#comments

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/980384/#comments

Með þessu er ég ekki að segja að það sé ekki sanngjarnt að lækka skuldir heimilanna. Ég er aðeins að segja það að ekki sé hægt að fjármagna þær afskriftir með þeim hætti, sem HH og einnig Framsóknarflokkurinn eru að halda fram. Eina leiðin til að koma lækkunum á höfuðstól skulda þeirra, sem geta greitt sínar skuldir, yfir á kröfuhafa gömlu bankanna eru með dómi frá Hæstarétti og er því tómt mál að tala um að stjórnvöld geti látið slíka niðurfærslu fara fram án slíkrar dómsniðurstöðu öðruvísi en að skellurinn lendi á skattgreiðendum. Svo stór skellur á skattgreiðendum mun leiða til bæði skattahækkana og verulegrar veikingar velferðakerfisins. Því mun staða þeirra verst settu í þjóðfélaginu versna ef sú leið verður farinn.

Því mun það leiða til fjölgunar á gjaldþrotum heimila og fjölgunar á þeim heimilum, sem ekki eiga fyrir mat að fara þá leið, sem Hagsmunasamtök heimilanna boðar ögugt við það, sem ræðumenn á þessum fundi munu að öllum líkindum halda fram.

 

Ég get einnig sett fram eitt dæmi í viðbót til að sýna þetta.

 

Gefum okkur að einn nýji bankinn sé að kaupa skuldabréfasafn af gamla bankanum að nafnverði 500 milljarðar. Mat í dag á þeirri lágmarsupphæð, sem muni innheimtast þó allt fari hér á versta veg er 300 milljarðar. Nýji bankinn greiðir því nú 300 milljarða í upphafsgreiðslu og er bráðabyrgðaafskriftin því 200 milljarðar.

 

Þegar endurskoðun á verðmæti skuldabréfasafnsins fer fram árið 2012 hefur þurft að afskrifa 100 milljarða tapaðar kröfur úr þessu skuldabréfasafni og metið er að það þurfi að afskrifa 50 milljarða í viðbót. Þar með er matið á töpuðum kröfum við endurmatið árið 2012 orðið 150 milljarðar. Það er þá dregið frá nafverðinu upp á 500 milljarða og eftir stendur að nýji bankinn skuli greiða 350 milljarða fyrir skuldabréfasafnið. Hann greiddi 300 milljarða árið 2009 og þarf því að greiða 50 milljarða í viðbót árið 2012.

 

Nýji bankinn stendur því í þeirri stöðu árið 2012 að eiga 50 milljarða eftir af varúðarniðurfærslunni og samkvæmt mati þarf að afskrifa 50 milljarða í viðbót af skuldabréfasafninu vegna lántaka, sem ekki geta greitt sín lán að fullu.

 

Ef hins vegar ástandið verður betra en þetta þannig að við endurskoðunina árið 2012 sé búið að afskrifa 80 milljarða og útlit fyrir að það þurfi að afskrifa 20 milljarða í viðbót þá lítur dæmi þannig út að matið á töpuðum kröfum er orðið 100 milljarðar það er 80 milljarðar, sem er búið að afskrifa og 20 milljarðar, sem metið er að þurfi að afskrifa til viðbótar við það. Þar með er endurmetið kaupverð skuldabréfasafnsins 500 milljarðar mínus 100 milljarðar eða 400 milljarðar. Nýji bankinn greiddi 300 milljarða árið 2009 og þarf því að greiða 100 milljarða í viðbót árið 2012. Hann stendur því frammi fyrir því að eiga 20 milljarða eftir af 200 milljarða bráðabyrgðavarúðarniðurfærslunni frá 2009 því hann er búinn að afskrifa 80 milljarða og greiða 100 milljarða í viðbót fyrir skuldabréfasafnið við endurmat. Hann á því 20 milljarða eftir og það er sú upphæð, sem talið er að sé tapað af því, sem eftir er af skuldabréfasafninu.

 

Þetta dæmi lýsir því samkomulagi, sem gerð hafa verið milli gömlu og nýju bankanna vegna kaupa nýju bankanna á skuldabréfasöfnum gömlu bankanna. Ef einhver getur séð úr þessu dæmi svigrúm til að niðurfellinga á skuldum, sem ekki eru ákvæði um í þessum samningum þannig að þessar varúðarniðurfærslur geti nýst í það þá væri gott að hann gefi sig fram og útskýri hvar hann finnur það svigrúm. Vissulega getur endurskoðaða matið árið 2012 verið vanmat á greiðslugetu skuldara og þannig verið til eigghvað svigrúm til niðurfellinga. Við getum hins vegar ekkert sagt til um það núna hvort það mat verði vanmat eða ofmat. Það er því ekki hægt að fullyrða um það að hægt sé að nota varúðarniðurfærslu skuldabréfasafnanna til flatrar niðurfellingar og fráleitt að halda því fram að hægt sé að gera það í því mæli, sem HH hafa gert kröfu um.

 

Ef við ætlum að geta haft hér vitræna umræðu um það hvernig á að bregðast við skuldavanda íslenskra heimila þá þarf að ræða það út frá réttum forsendum. Annars kemur ekkert að viti út úr því. Kröfugerðir, mótmælafundir og greiðsluverkföll, sem byggja á röngum forsendum eru því að þvælast fyrir vitrænum aðgerðum til að taka á skuldavanda heimilanna og eru því partur af vandamálinu en ekki lausninni.


mbl.is Boðað til kröfufundar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Ertu að segja að ekki sé hægt að koma til móts við heimilin í landinu en stórir skuldarar eigi rétt á slíku.  Eða ertu bara á móti þessari leið því þér finnst hún vera rugl.  Einhver önnur leið sem þú ætlar að útskýra út fyrir mér kæmi vel til greina?

Björn Heiðdal, 5.12.2009 kl. 14:39

2 identicon

Sæll

Þess vegna eru bankar og lánastofnanir að bjóða lækkanir og niðurfellingar, vegna þess að það er ekki hægt? Bankarnir eru að sýna fram á að þessi málflutningur var og er réttur annars væri þetta ekki í boði hjá Íslandsbanka og Arion.

Kv.

Sveinbjorn (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 15:05

3 Smámynd: Baldur Már Bragason

Þetta er vel rökstutt hjá þér Sigurður.

Geturðu klárað málið endanlega með því að skýra hvernig

http://www.islandsbanki.is/einstaklingar/urraedi/husnaedislan/hofudstolslaekkun/ og

http://www.arionbanki.is/?PageID=5360 og http://www.arionbanki.is/?PageID=5363

passa inn í röksemdafærsluna?

Baldur Már Bragason, 5.12.2009 kl. 15:42

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Björn og Baldur. Ég skal með ánægju útskýra fyrir ykkur hvernig þær lækkanir, sem bankarnir eru núna að bjóða passa inn í röksemdafærslu mína.

Lækkanir á höfuðstól skulda umfram 110% af eignum eru að mestu eignir, sem eru hvort eð er tapaðar. Þær lækkanir eru því hluti þeirra niðurfellinga, sem kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna taka á sig enda ekki hægt að komast hjá því.

Lækkanir á gengistryggðum lánum við skipti þeirra yfir í lán í íslenskum krónum. Þessar lækkanir ráðast að mestu á þeirri trú manna að íslenska krónan sé 30% og lágt skráð. Því mun höfuðstóllk þeirra lána lækka hvort eð er þegar krónan styrkist. Það hefur vafalaust verið gert ráð fyrir slíkri lækkun í samningum um kaupverð skuldabréfasafnanna og því taka kröfuhafarnir í þrotabú gömlu bankanan þetta á sig enda ekki hægt að komast hjá slíkum lækkunum. Þú rukkar ekki lánið inn eftir 30 ár á núverandi gengi heldur á þáverandi gengi.

Hvað varðar lækkun lána Íslandsbanka gegn því að breyta þeim í óverðtryggð lán þá er verið að breyta þeim í lán með mun hærri vöxtum að meðaltali út lánstíman en þau lán eru á í dag. Því eru ekki taldar líkur á að heildargreiðslur þeirra lána út lánstíman eigi eftir að lækka við þessar breytingar. Þarna er því um að ræða ákveðinn blekkingarleik að hálfu bankans.

Ég hef aldrei haldið því fram að það kosti eitthvað fyrir nýju bankana að fella niður skuldir þeirra, sem ekki geta greitt sínar skuldir eða lækka gengistryggð lán í samræmi við vænta styrkingu íslensku krónunnar á greiðslutíma lánsins. Ég hef aðeins haldið því fram að það falli kostnaður á nýju bankana að lækka skuldir þeirra, sem geta greitt sínar skuldir og því hægt að láta þá borga. Slíkar lækkanir hafa kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna ekki samþykkt að taka á sig.

Vonandi nægir þetta til að skýra út málið fyrir ykkur.

Sigurður M Grétarsson, 5.12.2009 kl. 16:43

5 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er rangt hjá þér.

Kjarni málsins snýst um undirmálslán - rusllán - sem er skylt að afskrifa - á þessu ári skv. lögum um reiknisskil og löggilta endurskoðun.

Enginn opinber sjóður eða banki - á á bóka "eignir" (lánasafn) á hærra verði en líklegt raunvirði.

Þess vegna  er þessi túlkun  alger röksleysa.  Það  er skylt á að afskrifa öll undirmálslán í bókhaldi eiganda lánsins - sjóðs -eða banka.

Þegar sú afskrift fer fram (lögum samkvæmt) - þá myndast "afskrifatsjóður" hjá viðkomandi sjóð eða banka

Þegar  svo lán á húsnæði eru afskrifuð hjá Jón og Gunnu - er afskriftin bókuð á  "afskriftarsjóðinn"..  en ekki höfuðstól sjóðsins.

Það er svo allt annað mál - hvort ´viðkomandi sjóður þarfnast aukin eigin fjár - til að standast almennar reglur um eigið fé. Allt annað mál sem kemur afskriftinni "báðu megin" ekkert við.

Eigandi sjóðsins annað hvort fær  aukið eigið fé - eins og bankarnir þurftu að gera - eða sjóðurinn/bankinn fer á hausinn - og annar tekur við.

Svona er skylt að gera þetta - lögum samkvæmt.

Kristinn Pétursson, 5.12.2009 kl. 19:40

6 Smámynd: ESB

Svona í stuttu máli ertu að segja að þetta sé bara leikur að tölum og miðað við þær reglur sem í gildi eru sé þetta ekki hægt.  En ef t.d. reglunum yrði breytt gengi dæmið kannski upp.  Hvers vegna breytir þá Samfylkingin ekki reglunum og lagar þær til.  Stoppar hagur Íslands á ESB og alþjóðlegum bankamönnum?

ESB, 5.12.2009 kl. 21:32

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Svo furðulegt að flokksagi geti mótað menn á þennan hátt. Sjálfsblekking og þvælan sem fylgir Samspylkingunni er mögnuð. Ekki trúði ég því að við breytingu á stjórn landsins yfir til Samfylkingar og VG að þetta mundi gerast.

Skjaldborgin um heimilin snýst um að hlúa að fjármagnseigendum, bönkum og ríkissjóði. Sem dæmi hefur lán hjá mér hækkað úr 9.000.000 í 21.000.000. Samkvæmt þessari röksemdarfærslu Sigurðar er það allt í lagi og mjög eðlilegt að ég verði rukkaður um 21.000.000. Ef þessi staðreynd flokkast ekki undir forsendubrest....? Getur verið að Heimilin í Landinu hefðu einfaldlega verið betur stödd ef Sjálfstæðismenn og Framsókn hefðu bara þurft að laga sitt klúður? Allavega er skattpíningar flokkarnir og ríkisstjórn dagsins í dag ALLS ekki búin að sína mér né nokkrum öðrum að hvað það þýddi þegar hún lofaði umbótum og hvað Skjaldborg um heimilin væri í raun um. Sigurður er sorglegur.

Haraldur Haraldsson, 6.12.2009 kl. 11:20

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Kristinn Pétursson. Þú hefur klárlega ekki lesið það, sem ég hef skrifað þannig að þú skiljir það. Ég hef aldrei haldið því fram að lækkun undirmálslána úr lánasöfnum gömlu bankanna lendi á nýju bönkunum. Þær afskriftir lenda á kröfuhöfum í þrotabú gömlu bankanna enda eru það tapaðar kröfur og eru varúðarafsskriftunum einmitt ætlað að dekka það. Varúrararfsksriftunum er hins vegar ekki ætlað að dekka afskriftir annarra lána og því er ekki hægt að nota þær til að fjármagna lækkanir lána þeirra, sem geta greitt sín lán. Slíkar lækkanir fara því ekki á afskrifareikning, sem er ekki ætlað að mæta slíkum lækkunum heldur fara þær einmitt beint til lækkunar á höfuðstól nýju bankanna. Jafnvel þó það ótrúlega gerðist að nýju bankanrirn fengju einhverjar endurskoðunarskrifstofur til að skrifa upp á það að taka slíkar lækkanir af varúðarniðurfærslunni þá er það skammgóður vermir því þegar verð lánasafnanna verður endurmetið árið 2012 munu kröfuhafarnir aldrei samþykkja það og bankarnir munu ekki getað fengið neinn dómstól til að samþykkja það nema í gegnum dómsniðurstöðu um forendubrest. Það þarf því að fá dómsniðurstöðu frá Hæstarétti um það hvort um forsendubrest sé að ræða og hve mikið eigi að lækka höfuðstól lánanna á grunvelli hans til að hægt sá að koma slíkum lækkunum yfir á kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna. Án slíkrar dómsniðurstöðu munu lækkanir annarra lána en undirmálslána lenda beint á nýju bönkunum og lækka höfuðstól þeirra, sem því nemur og kalla þar með á meira eigið fé til að mæta því svo bankinn standist kröfur um lágmarks eigið fé.

FSB. Vald Alþingis til að breyta reglunm hvað þetta varðar takmarkast af stjórnarskránni. Í þessu tilfelli eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Margir tala um eignarrétt íbúðareigenda en staðreyndin er sú að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verndar menn ekki gegn tapi vegna þess að eign manns lækkar í verði á markaði eða að fjárhagslegar skuldbindingar vegna lana vaxi umfram það, sem menn ætluðu í upphaif. Hins vegar eru til lög, sem taka á óréttlátum samningum og forsendubresti, sem gæti í þessu tilfelli verndað lántaka. Það er hins vegar ekki Alþingis að skera úr um hvort um forsendubrest hafi verið að ræða heldur dómstóla. Við erum jú með þrískiptingu valdsins í löggjafarvald, dómsvald, og framkvæmdavald og þetta mál fellur einfaldlega undir dómsvaldið en hvorki löggjafarvaldið eða framkvæmdarvaldið.

Vissulega getur Alþingi sett lög um lækkun lána en þá fara lánveitendur einfaldlega í mál við ríkið á grunvelli eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Ef Hæstiréttur samþykkir síðan ekki túlkun Alþingis um forsendubrest eða telur ekki efni til eins mikilla lækkana og Alþingi ákvað þá verður ríkissjóður skaðabótaskildur gagnvart lánveitendurm upp á mismunin þar á. Það er upphæð, sem gæti farið upp í allt að 250 milljarða ef lækkunin yrði í samræmi við kröfu HH en það miðaðist þá við að Hæstiréttur samþykki ekki að um neinn forsendubrest sé að ræða og að gengistryggð lán séu lögleg. Frá þessari upphæð gæti síðan komið lækkun að því marki, sem lögmönnum ríkissjóðs tækist að sanna að hluti lækkananna hafi hvort eð er verið tapað fé. Það þurfa þeir hins vegar að sýna fram á gagnvart hverjum lánveitanda fyrir sig en ekki i heildina og væntanlega myndi allur vafi um slíkt vera túlkaður lánveitanda í hag því það var Alþingi, sem ákvað að knýja lánveitendur í lækkiun, sem ekki var forsenda fyrir ef þetta verður niðurstaða Hæstaréttar.

Það er því verulegur ábyrgðarhluti fyrir Alþingi að ákveða slíka lækkun án undangenginnar dómsniðurstöðu frá Hæstarétti að um forsendubrest sé að ræða.

Haranldur Haraldsson. Ég er ekki að skrifa það, sem ég skrifa vegna flokkshollustu. Mér er annt um þá, sem minnst mega sín og það er sannfæring mín að flöt niðurfærsla skulda skaði þá enda felst í henni flutningur á fé frá þeim verst settu í okkar þjóðfélagi til hinna betur setti meðal skuldara. Ég hef fært rök fyrir þeirri skoðun minni og flokka því þessi skrif þín undir ómerkilegt skítkast. Hvernig væri að koma með rök á móti þar, sem þú útskýrir hvað er rangt í minni röksemdafærslu.

Ég hef aldrei haldið því fram að þær hækkanir, sem hafa orðið á lánum fólks séu í lagi. Það eina, sem ég hef haldið fram er að á meðan ekki liggur fyrir dómsniðurstaða um forsendubrest eða að þessar hækkanir standist ekki lög með einhverjum hætti þá teljast þær löglegar og þar með verða þær ekki lækkaðar með öðrum hætti en annað hvort samkomulagi við lánveitendur eða niðurgreiðslum frá skattgreiðendum. Með dómsniðurstöðu um að þessar hækkanir standist ekki lög stendur málið með allt öðrum hætti. Ef þú hefðir lesið þau blogg mín, sem ég vísa í hér að ofan þá gætir þú séð að ég vonast eindregið til þess að niðurstaða Hæstaréttar verði sú að um forsendubrest sé að ræða og að gengistryggð lán verði dæmd ólögleg því þannig er hægt að lækka lán heimila án þess að heimilin sjálf þurfi að greiða fyrir þá lækkun í formi hærri skatta, lakara velferðakerfis og verri þjónustu ríkisins.

Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn gæti heldur ekki lækkað lán heimilanna án dómsniðurstöðu um forsendubrest án þess að heimilin sjálf þyrftu að greiða fyrir það með þessum hætti. Þetta snýst því ekki um það hverjir eru í stjórn. Það er ekki önnur leið í boði en að bíða eftir dómsniðurstöðu frá Hæstarétti um það hvort um forsendubrest er að ræða eða ekki og reyna síðan að létta greiðslubyrði lánanna þangað til sú dómsniðurstala liggur fyrir.

Það er reyndar alveg hægt að breyta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þannig að það sé gert veikara og því hægt að lækka skuldir heimilanna með þeim hætti, sem HH leggur til. Það þarf hins vegar að samþykkja það tvívegis með þingkosningum á milli og því tekur það tíma auk þess, sem verulegur vafi er á að meirihlut fáist fyrir því á tveimu þingum. Ef það er hins vegar gert er ljóst að slíkt senir lánshæfismat ríkisins, sveitafélaga og annarra íslenskra aðila langt niður í ruslflokk.

Því er það svo að þú þú farir með rétt mál varðandi afskriftir undirmálslána þá eru þú að bulla varðandi skrif mín. Ég er ekki að tala um undirmálslánin í þessu samhengi heldur flata lækkun allra lána líka þeirra, sem eru ekki undirmálslán. Reglur um undirmálslán eiga því ekki við um þau.

Það að lækka lán þeirra, sem geta greitt sín lán lendir því á nýju bönkunum en ekki þrotabúum gömlu bankanna. Ef stjórnvöld taka ákvörðun um að það skuli gert þá rýrnar eigið fé

Sigurður M Grétarsson, 6.12.2009 kl. 12:42

9 identicon

Allir sem fullyrða að þeim sé annt um þá sem minnst mega sín standa í því sem ég kalla aumingja pólitík. Það eru atkvæðaveiðar út á ógæfu annarra. Þeir sem hafa orðið á einhvern hátt undir eru notaðir til að réttlæta að setja fleiri í svipaða stöðu. Það er talað niður til þeirra og þeir kallaðir "minna mega sín" þessi dægrin. Fjölgun í þessum hóp er þeim kappsmál í raun því þannig verða pólitíkusar áfram í valdastöðu með að úthluta ölmusu. Sigurður passar inn í þennan hóp. Setur sig upp sem hjálpara með blæðandi hjarta. Talað er um rök í málflutningi og vísað í þrískiptingu valdsins en horft fram hjá því að hér er framkvæmdavald sem gín yfir Alþingi og samtrygging flokksræðis er alsráðandi. Allt er miðað út frá ríkjandi valdaskipan og algjörlega hunsað að dómsvaldið í núverandi mynd er sett upp sem stuðningskerfi við áðurnefnt flokksræði.

Flokkunum er stýrt af þeim sem kallaðir eru aðilar vinnumarkaðarins. Þeir ríkja yfir lífeyrissjóðum og bönkum og þeim er nákvæmlega sama um velferð hins almenna borgara. Völdin eru það sem skiptir þá máli, þeir eru spilltir en þurfa ekki að svara fyrir neitt. Pólitíkusar eru peðin þeirra. Dómsvaldið er einnig undir hæl flokkræðis því hver einasti dómari var valinn af valdastétt flokksræðisins. Þetta sást vel á dóminum í máli SP-fjármögnunar gegn Óskari Sindra. Í dómsúrskurðinum sjálfum fer dómarinn á svig við lögin með ósvífnum hætti. Allt er metið frá sjónarhóli lánveitandans. Hagsmunagæsla dómarans fyrir fjármálaveldið er algjör. Engin sönnunarbyrði hvíldi á SP-fjármögnun. Öll sönnunarbyrði var sett á lántakann. SP-fjármögnun var látin þjóta vafans á allan hátt. Lög um neytendavernd vöru hunsuð fullkomlega. Einmitt lögin sem Sigurður vísar í voru einnig hunsuð.

Upphaflegir kröfuhafar bankanna eru löngu horfnir. Þeir seldu kröfurnar innan nokkurra vikna frá hruninu og fengu skaðann bættann hjá fjármálatryggingarfélögum (sem fóru næstum því á hausinn og var bjargað af bandarískum skattgreiðendum). Þær voru keyptar á hrakvirði af allskyns aðilum sem ætla sér að græða á þeim að sjálfsögðu (ef að líkum lætur frá 3% til 10% af upphaflegu virði) . Tengsl þessara aðila við íslenska hagsmunaaðila þurfa að komast upp á yfirborðið svo við vitum hvað er raunverulega í gangi. Mann grunar óneitanlega að þarna sé eitthvað sem þeir vilja ekki að sjái dagsins ljós. Það kæmi sér illa fyrir ríkjandi valdastéttir landins. 

Sigurður er einn af verndurum ríkjandi ástands í landinu. Fái hans skoðanir að ráða verða hér engar breytingar á einu né neinu. Það verður ekki tekið á neinu óréttlæti. Eignaupptakan hjá almenningi heldur áfram. Sömu fjölskyldurnar sitja að kjötkötlunum og allur almenningur má bara gjöra svo vel og borga til að tryggja ríkjandi valdastétt áframhaldandi forréttindi.

Sigurður skilur ekki málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna af því hann hefur ekki kynnt sér hann. Hann er einn af fulltrúum þess flokks sem er að reyna að sanna sig fyrir fjármálaklíkunni í landinu. Þeir sem komast í náðina hjá þeirri klíku hafa aðgang að ódýru og jafnvel ókeypis fjármagni. Það er í raun engin röksemdafærsla í málflutningi Sigurðar. Þetta eru einfaldlega sundurlausar fullyrðingar, settar fram sem einhver gáfumanna rök. Ef menn ætla að rökstyðja mál sitt þurfa þeir að setja fram rökstuðning.

En þetta er allt í lagi. Leið Sigurðar og Samfylkingarinnar er í burðarliðnum. Hún mun leiða til hruns núverandi kerfis, það er óhjákvæmilegt. Fasteignamarkaðurinn nær sér ekki á strik því þeir sem gætu gefið eftir vilja það ekki. Kerfið er að grafa undan sjálfu sér og nauðsynleg eftirgjöf kerfisins verður enn meiri en ella hefði þurft. Þeir sem átta sig fyrst og henda ekki fé sínu í þessa hít mun farnast best.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 12:16

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ólafur. Þú ert svo sannarlega að kasta steini úr glerhúsi þegar þú ásakar mig um fullyrðingar án raka. Þín athugasemd er gott dæmi um fullyrðingar án raka. Ég hef hins vegar í grein minni hér að ofan og öðrum, sem ég vísa til fært rök fyrir mínum fullyrðingum og meðal annars notað til þess einföld dæmi til að gera útskýringar mínar auðskiljanlegri.

Það er einfaldlega rangt hjá þér að ég hafi ekki kynnt mér málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég hef þvert á móti kynnt mér þetta mál vel og ég er viðskiptafræðingur og þess vegna sé ég í gegnum bullið og rangfærslurnar hjá þessum samtökum.

Fullyrðing þín um að ég og minn flokkur viljum fjölga í hópi þeirra verst settu eru út í hött. Ég er einmitt að skrifa gegn kröfu, sem mun gera nákvæmlega þetta, það er fjölga þeim, sem ekki eiga til hnífs og skeiðar. Það eru einungis þeir betur settu, sem munu hagnast á leið HH.

Allt tal þitt um að ég og Samfylkingin séum að reyna að sanna okkur fyrir fjármálaöflunum getur í besta lagi flokkast undir ómerkilegt skítkast. Þó menn séu ósammála um hvaða leiðir séu best til þess fallnar að hjálpa skuldugum heimilum, sem núverandi stjórnvöld eru að reyna eftir bestu getu að hjálpa, þá gefur það ekki tilefni til neinna slíkra orða.

Það skiptir engu máli þó stór hluti krafna í íslensku bankanna hafi gengið kaupum og sölum. Núverandi eigendur þeirra njóta samt, sem áður verndar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Það að flokka allt dómsvaldið þannig að það sé undir hælnum á stjórnveöldum út af einum dóm, sem þú ert ósáttur við segir allt, sem segja þarf um þín skrif. Ég er ekki lögfræðingur og get því ekki dæmt um þau rök, sem dómararnir í Héraðsdómi Reykjavíkur færðu fyrir sinni niðurstöðu. Við skulum gera ráð fyrir því að þú sért lögfærðingur með sérfræðiþekkingu á þessu sviði miðað við skrif þín.

Hitt ber þó að hafa í huga að þetta er aðeins fyrri hálfleikur. Seinni hálfleikurinn fer fram í Hæstarétti. Í raun er ég ekki hissa á því að héraðsdómur komist að þessari niðurstöðu. Þetta er mjög stórt mál, sem ljóst var þegar málið fór fyrir héraðsdóm að það færi áfram til Hæstaréttar hver, sem niðurstaða héraðsdóms yrði. Hér er um gríðarlega umdeilt mál að ræða í þjóðfélaginu og ljóst að héraðsdómur yrði gagnrýndur harkalega hver, sem niðurstaða hans væri. Við þessar aðstæður er mikil freisting fyrir héraðsdómara að úrskurða með þeim hætti, sem ylli minni ringulreið í þjóðfélaginu þann tíma, sem málið væri til meðhöndlunar hjá Hæstarétti. Sú leið er að dæma með núverandi ástandi, sem gengur út á að þessar kröfur séu löglegar. Ég er því ekki sannfærður um að niðurstaða Hæstaréttar verði endilega sú sama þó vissulega geti það verið.

Það að krefjast þess að löggjafarvaldið taki fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu í málium, sem fjalla undir dómsvaldið en ekki löggjafarvaldið með þeim rökum að dómsvaldið sé undir hælnum á framkvæmdarvaldinu getur í besta falli talist heimskuleg. Það að fara slíka leið og gefa þannig fordæmi fyrir því að stjórnvöld fari ekki eftir íslenskri stjórnskipan né heldur stjórnarskránni er besta leiðin til að gera Ísland að bananalíðveldi eða allavega verra bananalíðveldi en það er nú þegar. Þrískipting valdsins er eitt mikilvægasta atriðið í siðaðri stjórnskipan og besta vörn, sem almenningur hefur gagnvart valdhöfum og sterkum aðilum í þjóðfélaginu.

Ef þú hugsar þetta mál í alvöru þá þarft þú að spyrja þig eftirtaldar spurningar. Hvort villt þú búa í ríki þar sem.

a. ekki er hægt að taka af þér eignir þínar þó meirihluti þjóðarinnar telji rétt að gera það nema með leiðum, sem standast lög og stjórnarskrá og þá með úrskurði dómstóla.

b. hægt er að taka af þér eignir þínar ef meirihlutavilji er fyrir því á Alþingi. Það fer því eftir móralnum í þjóðfélaginu og því hverjir fara með meirihluta á Alþingi á hverjum tíma hvort þú færð að halda eignum þínum eða ekki.

Hvort vilt þú búa í þjóðflélagi a eða b? Ef þú værir stór fjárfestir, sem værir að fara að fjárfesta í atvinnurekstri til dæmis að byggja álver eða aðra stóriðju, hvort myndir þú gera það í þjóðfélagi a eða b?

Sigurður M Grétarsson, 3.1.2010 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband